Viðskipti innlent

Íslensk sérleyfi seld til útlanda

Íslensk fyrirtæki í útrás nýta sér í auknum mæli sérleyfi sem þau selja í útlöndum. Sérleyfi, eða svokallað „franchise“, hefur verið nokkuð áberandi á Íslandi undanfarin ár, þ.e.a.s. að íslensk fyrirtæki stofni fyrirtæki hér á landi á erlendu sérleyfi sem þau hafa keypt. Má nefna MacDonalds sem dæmdi um þekkt sérleyfi. En nú virðist sem verið sé að snúa fyrirkomulaginu við. Samkvæmt Samtökum verslunar og þjónustu virðist sem íslensk þjónustufyrirtæki sem hyggja á útrás nýti sér viðskiptasérleyfi í vaxandi mæli og í stað þess að kaupa erlend sérleyfi og setja fyrirtæki á stofn hér á landi séu útlendingum seldar íslenskar viðskiptahugmyndir. Meðal þeirra fyrirtækja sem vinna að stofnun erlends sérleyfis eru Bláa lónið og íslenska snyrtivörufyrirtækið No Name sem meðal annars rekur förðunarskóla. Kostirnir við þessa leið eru taldir vera lítil fjárhagsleg áhætta og góðir stækkunarmöguleikar. Samtök verslunar og þjónustu segjast hafa orðið vör við verulega aukinn áhuga þjónustufyrirtækja á þessari leið og hafa veitt fyrirtækjum aðstoð við hana, bæði með almennri ráðgjöf og einnig með því að aðstoða fyrirtækin við að komast í samband við erlenda tengiliði. Almennt eru sérleyfi talin vera algengasta aðferðin á Vesturlöndum við stækkun fyrirtækja.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×