Sport

Leikum aftarlega gegn Mainz

Kristján Guðmundsson þjálfari knattspyrnuliðs Keflavíkur segir að hann ætli að láta lið sitt spila varnarbolta gegn þýska liðinu Mainz í 2. umferð Evrópukeppni félagsliða en liðin mætast í Þýskalandi í kvöld. Þýska liðið lenti í 11. sæti í þýsku Bundesligunni á síðasta tímabili en fékk Evrópusæti út á háttvísismat UEFA. Þeir töpuðu naumlega fyrir Köln, 1-0 í fyrstu umferð Bundesligunnar um sl.helgi. "Þeir spila öðruvísi bolta en við erum vanir að mæta, agressívan bolta. Þeirra leikstíll er 4-3-2-1 með mikilli hápressu og bakverðirnir eru dulegir að koma upp til sóknar. Það er ekki nein svokölluð stjarna í þessu liði en þetta lið er sterk heild. Ef ég á að nefna einhverja sérstaka ógn í Mainz þá hafa þeir verið að tala mikið um brasilíska miðjumanninn Antonio da Silva. Hann teiknar marga góða bolta á framherjana og er mikið í að fiska aukaspyrnur." sagði Kristján m.a. í viðtali í "Fótboltavikunni" á Talstöðinni á þriðjudaginn. Kristján sagði einnig að Keflvíkingar, sem eru hvað þekktastir fyrir skæðan sóknarleik í íslenska boltanum, ætli að fara varlega í kvöld og spila aftarlega. "Við ætlum að vera aftarlega og reyna að pirra þá með þéttri vörn. Þá verða þeir vonandi taugaóstyrkir." sagði Kristján. Íslenskir knattspyrnuunnendur geta séð leikinn á Ölver og Players á höfuðborgarsvæðinu og á veitingastaðnum Traffic í Keflavík. Leikurinn hefst kl. 18:30 að íslenskum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×