Mikhail Gorbatsjov, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, lendir á Reykjavíkurflugvelli um klukkan fjögur í dag og kemur til landsins í einkaflugvél Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Um þessar mundir eru tuttugu ár liðin frá leiðtogafundi Gorbatsjovs og Ronalds Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Höfða. Gorbatsjov heldur fyrirlestur í Háskólabíói á morgun þar sem hann fjallar um fundinn og áhrif hans á gang heimsmála. Fyrir Íslendinga er brotthvarf hersins af Miðnesheiði líklega lokahnykkurinn á því ferli sem hófst þá.
Gamalreyndir fjölmiðlamenn miðla af reynslu sinni og upplifun af leiðtogafundinum í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í kvöld klukkan átta. Spurt verður um áhrif fundarins á íslenska blaðamennsku og hvaða erindi hann eigi við fólk í dag. Allir eru velkomnir.