Körfubolti

Skoraði 27 stig með vinstri

Larry Bird er hér í baráttu við vin sinn og helsta keppnaut á ferlinum, Magic Johnson hjá LA Lakers
Larry Bird er hér í baráttu við vin sinn og helsta keppnaut á ferlinum, Magic Johnson hjá LA Lakers NordicPhotos/GettyImages

Körfuboltagoðsögnin Larry Bird sem lék með Boston Celtics á árum áður varð fimmtugur í gær og í tilefni af því var heill dagur helgaður ferli þessa frábæra íþróttamanns á NBA TV sjónvarpsstöðinni. Þar sögðu margir af félögum hans og keppinautum skemmtilegar sögur af honum.

Bird var frægur fyrir að gefa út stórar yfirlýsingar fyrir leiki og þótti með afbrigðum hrokafullur, en þessi hroki var í raun aðeins sálfræðihernaður sem hann beitti mótherja sína með góðum árangri. Bird hefur verið minnst sem eins mesta sigurvegara sem stigið hefur inn á körfuboltavöllinn.

Miðherjinn Bill Walton var sjálfur vel liðtækur á körfuboltavellinum, en hann spilaði til skamms tíma með Bird hjá Boston. Í þætti um Bird á NBA TV í gær sagði Walton sögur af félaga sínum og hvernig hann hefði spáð því fyrir útileikjaferðalög að hann ætti eftir að verða með ákveðið mörg stig og fráköst að meðaltali - og stóðust þessar spár hans yfirleitt eins og stafur á bók.

Walton sagði að í eitt skiptið hefðu sér þó gjörsamlega fallið hendur þegar Bird lýsti því yfir fyrir lokaleik á erfiðu keppnisferðalagi að hann ætlaði að spila að minnsta kosti þrjá leikhluta þar sem hann notaði aðeins vinstri hendina til að skjóta. Félagar hans hlógu að honum, en hættu að hlæja þegar Bird hafði skorað 27 stig eftir þrjá leikhluta - bara með vinstri hendinni - og sigurinn var auðveldlega í höfn. Vart þarf að taka fram að Boston vann alla leikina á ferðalaginu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×