Körfubolti

Paul Arizin látinn

Paul Arizin lék lengst af með Philadelphia Warriors og fann stökkskotið upp af tilviljun
Paul Arizin lék lengst af með Philadelphia Warriors og fann stökkskotið upp af tilviljun NordicPhotos/GettyImages

Bandaríska körfuboltagoðsögnin Paul Arizin sem fyrir nokkrum árum var útnefndur einn af 50 bestu leikmönnum í sögu NBA deildarinnar, lést á heimili sínu í Philadelphia gærkvöldi, 78 ára að aldri. Arizin var kosinn besti leikmaður deildarinnar árið 1952 og var einn fyrsti maðurinn til að notast við stökkskotið á sínum tíma, en það er nú undirstöðuatriði allra körfuboltaiðkenda.

Arizin er jafnan nefndur upphafsmaður stökkskotsins í NBA ásamt Joe Fulks. Það var nokkuð einkennileg tilviljun sem réð því að Arizin tók að skjóta með þessum hætti, en síðan er stökkskotið orðið jafn eðlilegur hluti af leiknum og boltinn sjálfur.

"Það var nú nokkuð sérstakt hvernig þetta kom allt saman til," sagði Arizin í viðtali árið 1998. "Það voru oft haldin böll í íþróttahúsinu þar sem við æfðum og gólfin voru því oft mjög hál. Mér gekk því erfiðlega að fóta mig í sveifluskotunum og prófaði því að þróa það að skjóta í loftinu."

Arizin var valinn einn af 50 bestu leikmönnum í sögu NBA deildarinnar árið 1996 og fékk sæti í heiðurshöllinni árið 1978. Hann spilaði með liði Philadelphia Warriors á árunum 1951-62 og var tvisvar stigakóngur deildarinnar. Ariza skoraði að meðaltali 22,8 stig í leik á ferlinum og hirti 8,6 fráköst og var lykilmaður í meistaraliði Warriors árið 1956 en lét sér ekki muna um að taka sér tveggja ára frí þegar hann var upp á sitt besta til að gegna herþjónustu í Kóreustríðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×