Enski boltinn

Essien varar Man. Utd. við

MIchael Essien hefur verið einn besti leikmaður Chelsea á tímabilinu.
MIchael Essien hefur verið einn besti leikmaður Chelsea á tímabilinu. MYND/Getty

Michael Essien hjá Chelsea telur að lið sitt sé langt frá því búið að segja sitt síðasta í baráttunni við Manchester United um Englandsmeistaratitilinn. Essien segir að það sé aðeins tímaspursmál hvenær Chelsea fari að spila eðlilega á ný og hvenær Man. Utd. detti úr því formi sem það hefur verið í að undanförnu.

Hinn 24 ára gamli Essien hefur spilað frábærlega fyrir Chelsea í vetur og hefur, ásamt Didier Drogba, verið nánast sá eini sem haldið hefur stöðugleika í vetur og staðið upp úr meðalmennskunni.

“Á síðustu tveimur leiktíðum hefur Chelsea verið með forystu í deildinni, nánast frá upphafi til enda. Það hefur aldrei verið eins mikil áskorun fyrir okkur að vinna titilinn eins og nú. Man. Utd. hefur veitt okkur harða keppni hingað til en ég er sannfærður um að dæmið muni snúast við innan skamms,” sagði Essien.

“Mér skilst að aðeins fjögur lið hafi unnið enska titilinn fjögur tímabil í röð og að sjálfsögðu er það eitt af markmiðum okkar í ár, að komast í hóp þessara liða. Mikil meiðsli hafa gert okkur erfitt fyrir en allt sem við getum gert er að halda áfram að berjast. Það munar ekki nema sex stigum og það er öruggt að öll lið munu lenda í meiðslum. Man. Utd. er engin undantekning og það er mikilvægt fyrir okkar að vera á tánum þegar þeir fara að gera mistök í sínum leikjum,” sagði Essien jafnframt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×