Körfubolti

Miami missti niður 19 stiga forystu

Shaq og félagar í Miami eru ekki upp á sitt besta í augnablikinu.
Shaq og félagar í Miami eru ekki upp á sitt besta í augnablikinu.

Philadelphia sýndi mikinn karakter í leik liðsins gegn Miami í nótt með því að vinna upp 19 stiga forskot meistaranna í síðari hálfleik og uppskera að lokum öruggan sigur, 93-85. Þetta var 10 sigur Philadelphia í síðustu 14 leikjum, en jafnframt þriðja tap Miami í síðustu fjórum leikjum.

"Við erum með gott sjálfstraust þessa dagana og verðum að leyfa okkur að hrósa sjálfum okkur. Við spiluðum frábærlega í vörninni og fengum hraðaupphlaupin sem skiluðu okkur sigri," sagði Andre Iguodala, leikmaður Philadelphia, en hann skoraði 14 af alls 19 stigum sínum í leiknum í síðari hálfleik.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan 30-13, Miami í vil, og í hálfleik munaði 15 stigum á liðunum. "Þetta á ekki að geta gerst. Í síðari hálfleik vorum við skelfilegir," sagði Pat Riley, þjálfari Miami.

Philadelphia á nú eftir að spila tólf leiki á tímabilinu og eru fjórum leikjum frá því að komast í úrslitakeppnina. Með sama áframhaldi gæti liðið komist í úrslitakeppnina, en það er þó einnig háð því að helstu keppinautar liðsins í Austurdeildinni gefi eftir á lokasprettinum.

Jason Williams var stigahæstur Miami með 21 stig en Shaquille O'Neal var með 18 stig.

Þrír aðrir leikir voru á dagskrá deildarinnar í nótt. Vince Carter skoraði 40 stig og var maðurinn á bakvið 113-107 sigur New Jersey á Charlotte. Leikurinn var framlengdur, en það var einmitt Carter sem tryggði liði sínu framlengingu með því að troða knettinum í körfuna í þann mund sem lokaflautið gjall.

Carlos Boozer skoraði 28 stig og hirti 15 fráköst þegar Utah vann Memphis, 118-108. Þá sigraði LA Clippers lið Washington, 111-105. Gilbert Arenas skoraði 30 stig fyrir Washington en Corey Magette var með 29 stig fyrir Clippers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×