Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO er harkalega gagnrýnd í breska tímaritinu The Lancet. The Lancet er málgagn bresku læknasamtakanna og eitt virtasta tímarit sinnar tegundar í heiminum. Í grein tímaritsins segir að WHO byggi ráðleggingar sínar oft á tíðum á litlum sem engum sönnunargögnumgögnum.
Það er enginn smáræðis galli á starfsemi stofnunar sem hefur það aðalmarkmið að móta stefnu og gefa ráðleggingar í heilbrigðismálum fyrir alla heimsbyggðina. Stofnunin fjallar um allt frá vörnum gegn fuglaflensu og malaríu til ráðlegginga um lagasetningu vegna reykinga.
WHO sendir árlega frá sér um 200 leiðbeiningar í heilbrigðismálum. Þeir sem þar vinna eiga að hafa aðgang að og geta unnið úr bestu gögnum sem fáanleg eru. The Lancet segir að á því séu stórkostleg vanhöld.
Rannsóknarstjóri WHO, dr. Tikki Pang viðurkennir að vandinn sé fyrir hendi og útskýrir að tíma- og fjárskortur hamli stundum verkefnum. Nú muni þeir hinsvegar taka sér tak. Spurningin er hvernig hinar 193 aðildarþjóðir WHO bregðast við grein The Lancet, á þingi um framtíð stofnunarinnar sem hefst í Genf í næstu viku.