Fótbolti

Segir Stuttgart eiga titilinn skilinn

100 þúsund manns söfnuðust saman í miðbæ Stuttgart í nótt og fögnuðu meistaratitlinum.
100 þúsund manns söfnuðust saman í miðbæ Stuttgart í nótt og fögnuðu meistaratitlinum. MYND/Getty

Armin Veh, þjálfari nýkrýndra Þýskalandsmeistara Stuttgart, segir fráleitt að halda því fram að lið hans eigi titilinn ekki skilið. Leikmenn og forráðamenn Schalke létu hafa eftir sér eftir lokaumferðina í gær að lið sem væri á toppnum í þrjár vikur af 34 vikna tímabili ætti ekki skilið að standa uppi sigurvegari. Schalke var á toppi deildarinnar í 15 vikur í vetur.

"Þetta er mjög einfalt - það lið sem er á toppnum þegar tímabilið er á enda á skilið meistaratitilinn," sagði Veh við þýska fjölmiðla í morgun. Schalke tapaði tveimur af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni á meðan Stuttgart vann síðustu níu leiki sína og vann þar með upp sjö stiga forskot Schalke frá því í mars og gott betur.

Gríðarlegur múgur myndaðist í miðbæ Stuttgart í gærkvöldi eftir að meistaratitilinn var í höfn, sá fyrsti síðan 1991. Talið er að yfir 100 þúsund manns hafi dansað og sungið fram undir morgun og hyllt leikmenn liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×