Viðskipti erlent

Hlutabréf lækka í Evrópu

Gengi hlutabréfa hefur lækkað nokkuð á hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag þrátt fyrir ágæta hækkun í Bandaríkjunum í gærkvöldi og væna hækkun í Japan í morgun. Ljóst er að óróleiki á fjármálamarkaði bítur enn í fasteignalánafyrirtæki, í þetta sinn í Bretlandi. Skýringin fyrir lækkuninni í Bretlandi liggur í því að stærsta fasteignalánafyrirtæki landsins greindi frá því að það hefði nýtt sér neyðarlán frá Englandsbanka til að koma í veg fyrir lausafjárskort. Fyrirtækið sendi frá sér afkomuviðvörun í framhaldinu og gengi bréfa þess hrundi.

Fyrirtækið heitir Northern Rock og er eitt stærsta fasteignalánafyrirtæki Bretlands. Gengi bréfa í fyrirtækinu féll um heil 24 prósent á markaði.

Fjármálaskýrendur segja hins vegar í samtali við breska ríkisútvarpið að eignastaða Northern Rock sé afar sterk, einir 113 milljarðar punda, jafnvirði 14.662 milljarðar íslenskra króna, og því sé afar ólíklegt að fjármálafyrirtækið verði gjaldþrota. Lán Englandsbanka er með veð í eignasafninu í kjölfar lánsins.

Lántakan hafði áhrif á fjölda breskra fjármálafyrirtækja og gengi breska pundsins sömuleiðis, sem lækkaði snögglega gagnvart bandaríkjadal.

Lántakan hefur áhrif á afkomu fyrirtækisins og gera stjórnendur þess ráð fyrir því að hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði verði rúmlega 100 milljónum punda minni í ár en á síðasta ári.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er degi lækkað um 1,1 prósent og hin þýska Dax-vísitalan um 0,63. Norrænu markaðirnir hafa ekki farið varhluta af lækkuninni en C20-vísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn hefur lækkað um rúm 0,70 prósent en um 0,6 prósent í Svíþjóð.

Hækkun var á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í gær og Japan í morgun en Nikkei-vísitalan hækkaði um heil 1,94 prósent við lokun viðskipta í kauphöllinni í Tókýó. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×