Miguel Cotto vann sinn stærsta sigur á ferlinum í nótt þegar hann hafði betur gegn Shane Mosley á stigum í bardaga þeirra um WBA beltið í veltivigt sem fram fór í New York. Bardaginn var sýndur beint á Sýn.
Portó Ríkó-maðurinnn er því kominn í lykilstöðu til að skora á sigurvegarann úr risabardaga Floyd Mayweather og Ricky Hatton í næsta mánuði. Tveir dómaranna í nótt skoruðu bardagann skemmtilega 115-113 og sá þriðji 116-113, Cotto í vil.
Cotto er því kominn með 31-0 árangur á ferlinum en hinn 35 ára gamli Mosley tapaði þarna sínum fimmta bardaga á ferlinum og óljóst er hvað verður hjá honum í framhaldinu eftir glæsilegan feril.