Hagvöxtur í Bretlandi nam 0,7 prósentum á þriðja ársfjórðungi og mælist 3,2 prósent á ársgrundvelli. Það er 0,1 prósentustigi undir væntingum markaðsaðila Bloomberg.
Greining Landsbankans segir í Vegvísi sínum í dag að hagvöxtur fari minnkandi eins og búist hafi verið við og telji forsvarsmenn Englandsbanka að hann muni lækka frekar á næstunni. Á hinn bóginn er olíuverð í hæstu hæðum og leiðir sú hækkun til aukinnar verðbólgu í landinu, að því er segir í Vegvísinum.
Þá er tekið fram að þótt þetta skapi ákveðinn vanda fyrir Seðlabanka Bretlands, Englandsbanka, þá sé því spáð að hann muni bregðast við minni hagvexti með lækkun stýrivaxta.