Snarpur viðsnúningur varð á gengi helstu hlutabréfavísitalna á Vesturlöndum skömmu eftir hádegi í dag þegar bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs greindi frá því að líkur væru á að HSBC, einn af stærsti bönkum heims, gæti neyðst til þess að afskrifa tólf milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 760 milljarða íslenskra króna, útlán.
Fréttaveita Bloomberg segir ljóst að enn eigi eftir að dýpka á undirmálslánakrísunni, sem hefur plagað fjármálafyrirtæki víða um heim vegna mikilla vanskila á fasteignalánum vestanhafs. Bloomberg hefur hins vegar eftir fulltrúum nokkurra af stærstu bönkum Bandaríkjanna, að þeir vilji ekki tjá sig um málið.
Þá spilar inn í að bandarískir bankar lækkuðu verðmat sitt á nokkrum af stærstu byggingaverktökum vestanhafs í dag.
Gengi helstu vísitalna var á uppleið fram eftir degi en snérist snarlega við eftir að fréttin birtist.
FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkaði um 0,9 prósent og vísitölur í öðrum löndum litlu minna.
Þá lækkaði Dow Jones-vísitalan í Bandaríkjunum snarlega en hún hefur það sem af er dags lækkað um 0,25 prósent. Nasdaq-vísitalan hefur sveiflast nokkuð en hún hefur lækkað um rúm 0,6 prósent.
Viðsnúningur á erlendum mörkuðum
