Talsverð hækkun varð almennt á gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum í dag í kjölfar nokkurrar lækkunar í gær. Helsta ástæðan fyrir hækkuninni í dag voru fréttir þess efnis að Citigroup, einn stærsti banki Bandaríkjanna, hefði selt fjárfestingasjóði í Abu Dhabí jafnvirði 4,9 prósenta hlut í bankanum til að bæta eiginfjárstöðuna eftir gríðarlegt tap og afskriftir, sem að mestu eru tilkomnar vegna vanskila á fasteignalánum.
Fréttastofa Associated Press segir líkur á að aðrir bandarískir bankar muni grípa til svipaðra aðgerða í ljósi afskriftanna en slíkt er talið geta bætt stöðu þeirra og gengi umtalsvert. En eigi þó eftir að koma í ljós hvort undirmálslánakreppan muni setja frekara strik í afkomureikning fjármálastofnana í Bandaríkjunum.
Svo vel tóku fjárfestar í fréttirnar að litlu virtist skipta að væntingar bandarískra neytenda hafa ekki verið með daprara móti í tvö ár, samkvæmt niðurstöðum bandaríska viðskiptaráðsins á horfum í efnahagsmálum.
Dow Jones-vísitalan hækkað um 1,69 prósent og Nasdaq-vísitalan um 1,57 prósent.