Handbolti

Eigum góða möguleika á að klára þetta í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Ingi Hrafnsson skoraði þrjú mörk í kvöld.
Einar Ingi Hrafnsson skoraði þrjú mörk í kvöld.

Magnús Erlendsson fór í gang í Frammarkinu og varði 12 bolta síðustu 22 mínúturnar í 27-24 sigri Fram á Akureyri í undanúrslitaleik Eimskipsbikarsins í kvöld. Markverðir Fram voru aðeins búnir að verja 8 af 24 fyrstu skotum Akureyringa þegar Magnús hrökk í stuð á lykiltímapuntki í leiknum og Framliðið breytti stöðunni úr 17-16 í 24-20.

„Þetta var erfið fæðing og við vorum svolítið lengi í gang. Það var óöryggi í varnarleiknum og auðveld skot voru að sleppa í gegn. Maður var því lengi að koma sér í gang," sagði Magnús sem byrjaði á bekknum en kom inn þegar Björgvin Páll Gústavsson hafði aðeins varið 4 af fyrstu 14 skotum Akrueyringa.

„Svo kom sjálfstraustið og þetta fór að smella. Ég fór að taka þægilegu boltana og svo datt eitt og eitt dauðafæri með. Það skipti fyrst og fremst máli að maður fór að finna öryggið og fór að taka þessa þægilegu bolta," segir Magnús sem varði alls 16 bolta í leiknum eða 53 prósent skotanna sem á hann komu.

Framarar eru komnir í bikarúrslitaleikinn í fjórða sinn frá og með árinu 2002 en þeir hafa samt ekki unnið bikarinn síðan árið 2000. „Ég var í Framliðinu þegar við unnum síðast bikarinn en ég held að ég hafi tapað þremur bikarúrslitaleikjum síðan þá. Eigum við ekki að segja að þetta komi núna. Ég vill meina að við séum með ungt og gott lið og eigum góða möguleika á að klára þetta í ár," sagði Magnús kátur í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×