Skoðun

Skuldir og framtíðin

Matarverð hefur hækkað um tugi prósenta. Bensínverð hefur aldrei verið hærra. Skattar hækka á almenning. Tekjur lækka. Og síðast en ekki síst: Lán hafa hækkað upp úr öllu valdi.

Lykilspurningarnar í þessu ömurlega árferði - í framhaldi af svargrein Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur við grein minni hér í blaðinu fyrir helgi - eru augljósar: Hvernig er hægt að losa byrðar af herðum almennings? Hvernig eigum við að koma hagkerfinu af stað? Hvernig eigum við að skapa íslenskum heimilum meira svigrúm til þess að lifa, neyta, fjárfesta og framkvæma? Ef okkur hugkvæmist ekki leiðir til þess að örva hagkerfið mun kreppan dýpka, með tilheyrandi afleiðingum. Fólksflótti hefur verið nefndur.

Ein fárra leiða sem við höfum til þess að koma til móts við almenning í þessari stöðu og skapa von um bjartari framtíð er að ráðast í almennar aðgerðir á lánamarkaði sem miða að því að lækka höfuðstól og dreifa byrðum réttlátar milli skuldara og lánveitenda. Framsóknarflokkurinn hefur varið talsverðum tíma í tillöguflutning í þessum efnum og hafa fulltrúar hans lagt sig fram um að útskýra hvernig þetta er mögulegt, t.d. með almennri ráðstöfun afskrifta. Þannig aðgerð gæti örvað hagkerfið og þar með komið í veg fyrir víðtæka stöðnun og greiðsluvanda. Einnig má hugsa sér að almenningi verði boðið að lækka höfuðstól gegn því að breyta láni sínu á einhvern þann hátt sem kemur til móts við fjárþörf lánveitandans.

Margar leiðir eru til þess að takast á við bága stöðu skuldara. Mér er algerlega óskiljanlegt hvers vegna Sigríður Ingibjörg kýs í grein sinni að tala um málflutning minn í þessum efnum sem mælskubrögð og gaspur í stað þess að leggja til að við tökum höndum saman og reynum með öllum tiltækum aðferðum að létta byrðunum af almenningi. Ég sting upp á því hér með.

Höfundur er alþingismaður.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×