Körfubolti

Umfjöllun: KR-ingar kláruðu Fjölnismenn undir lokin

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Mynd/Vilhelm

KR sigraði Fjölni, 93-77, er liðin áttust við í fjórðu umferð Iceland-Express deildarinnar í körfubolta en leikurinn fór fram í DHL-höllinni.

Ben Stywall áttu fyrstu sex stigin fyrir gestina og lét vita að hann væri mættur í Vesturbæinn á meðan að KR-ingar reyndu að vakna og byrja leikinn. Heimamenn voru ekki lengi að vakna og tóku fljótt leikinn í sínar hendur með Brynjar Þór Björnsson sjóðheitann fyrir utan en hann setti niður þriggja stiga körfurnar í röðum og bauð gestina velkomna í DHL-höllina. Gestirnir svöruðu þó og bæði lið börðust af mikilli grimmd. Staðan eftir fyrsta leikhluta var, 26-22.

Baráttuglaðir Fjölnismenn gáfu heimamönnum ekkert eftir í öðrum leikhluta og áttu margar glæsilegar sóknir. Fjölnir komst svo loks yfir í fyrsta skipti í leiknum síðan á upphafssekúndunum þegar að annar leikhluti var tæplega hálfnaður en staðan var þá, 35-37, Fjölni í vil. Heimamenn tóku leikhlé til að fara yfir stöðuna því þeir virust ekki hafa nein svör við þessari orku gestanna. Fjölnir leiddi í hálfleik 43-47 og ljóst að framundan var mikil barátta en heimamenn löbbuðu þungir á svip til búningsherbergja.

Þungi svipurinn á heimamönnum var lengi úr andlitum þeirra en Fjölnismenn mættu með sömu baráttu og spilagleði út í síðari hlutann. KR-ingar komust loks í takt við leikinn á ný og leiddu fyrir loka leikhlutann með fjórum stigum, 64-60. Það kom að því að liðin skildust að en KR-ingar reyndust sterkari í fjórða leikhlutanum og silgdu sigrinum í land eftir ansi erfiðan róður í kvöld.

Fjölnismenn gáfu lítið sem ekkert eftir allan leikinn en virtust því miður vera einu númeri minna en KR-ingarnir undir lok leiks og þurftu að horfa á eftir sigrinum til heimamanna eftir fína frammistöðu. Lokatölur í Vesturbænum, 93-77, og héldu því heimamenn sáttir heim á leið eftir hamborgara og sigur í DHL-höllinni.

Í liði heimamanna var Finnur Atli Magnússon stigahæstur með 19 stig en í liði Fjölnis var það Ægir Þór Steinarsson með 14 stig.

KR-Fjölnir 93-77,(26-22), (43-47), (64-60), (93-77)

KR: Finnur Atli Magnússon 19/10 fráköst, Marcus  Walker 17/5 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 15/11 fráköst/11 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 14/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 9, Fannar Ólafsson 8/8 fráköst, Hreggviður Magnússon 4, Jón Orri Kristjánsson 3/7 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Martin Hermannsson 2.

Fjölnir: Ægir Þór Steinarsson 14/5 fráköst/12 stoðsendingar/5 stolnir, Tómas Heiðar Tómasson 13/5 fráköst, Ben Stywall 10/8 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 9, Trausti Eiríksson 8/7 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 7/5 fráköst, Sindri Kárason 5, Hjalti Vilhjálmsson 4, Sigurður Þórarinsson 4, Einar Þórmundsson 3.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×