Fótbolti

Bayern Munchen vann þýska bikarinn með stæl í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franck Ribery skoraði þriðja markið hjá Bayern.
Franck Ribery skoraði þriðja markið hjá Bayern. Mynd/AP
Bayern Munchen er þýskur bikarmeistari eftir sannfærandi 4-0 sigur á Werder Bremen í bikarúrslitaleiknum í Berlín í kvöld. Bayern er þar með tvöfaldur meistari í Þýskalandi á þessu tímabili og getur fullkomnað þrennuna með því að vinna úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Inter eftir eina viku.

Arjen Robben skoraði eina mark fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu á 35. mínútu sem var dæmt fyrir hendi á varnarmann Werder Bremen. Ivica Olic kom Bayern í 2-0 á 51. mínútu, Franck Ribery skoraði þriðja markið eftir stungusendingu Mark van Bommel á 63. mínútu og Bastian Schweinsteiger innsiglaði síðan sigurinn sjö mínútum fyrir leikslok.

Bayern Munchen vann þarna þýska bikarinn í fimmtánda sinn en Werder Bremen var núverandi bikarmeistari. Þetta var ennfremur í áttunda sinn frá upphafi og í fjórða sinn frá og með árinu 2005 sem Bayern vinnur tvöfalt í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×