Viðskipti innlent

Vill sameina Seðlabankann og FME að nýju

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er þeirrar skoðunar að sameina eigi Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands að nýju. Hann segir að það myndi stytta boðleiðir og auðvelda stjórnvöldum að meta kerfislæga áhættu.

Í efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í var kveðið á um að leita bæri til sérfræðings til að gera úttekt á regluverki og eftirliti íslenska fjármálakerfisins. Kaarlo Jännäri, fyrrverandi yfirmaður finnska fjármálaeftirlitsins, var fenginn til verksins og var ein helsta niðurstaða skýrslu hans í mars 2009 að sameina bæri Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið í eina stofnun.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, var gestur okkar í nýjasta þættinum af Klinkinu.

Forsætisráðherra sagði í þingræðu á 137. löggjafarþingi, fyrir tveimur árum, að stjórnvöld yrðu að taka afstöðu til þessarar spurningar. Hefur það verið gert? „Nei, ekki endanlega, en það hefur verið skoðað og er eitt af því sem, réttilega, þarf að taka afstöðu til."

Hver er þín afstaða? „Ég hallast að því að það beri að sameina þetta."

Hvers vegna? „Vegna þess að almennt erum við með lítið stjórnkerfi, litlar einingar og ég held að það gæti haft ákveðin samlegðaráhrif. Ég held að þetta gæti orðið sterkara. Nú þarf þetta að vera aðskilið og yrði það ef þetta yrði sameinað í einni stofnun, þetta yrðu sjálfstæðar einingar eftir sem áður enda þarf Fjármálaeftirlitið að vera alveg sjálfstætt þannig lagað séð, en ég held að þetta myndi stytta boðleiðir í kerfinu. Og varðandi mat á kerfsilægri áhættu, þá held ég að meira ynnist við þetta en tapaðist," segir Steingrímur. Nýjasta þáttinn af Klinkinu má finna hér.thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×