Fótbolti

Íslensku landsliðskonurnar í tapliðum í sænsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar voru ekki svona brosmiklar eftir leiki sína í dag.
Stelpurnar voru ekki svona brosmiklar eftir leiki sína í dag. Mynd/Daníel
Íslendingaliðin Kristianstad og Örebro töpuðu bæði leikjum sínum í sænsku kvennadeildinni í fótbolta í dag en þetta voru fyrstu leikirnir í sænsku úrvalsdeildinni eftir landsleikjahlé.

Stelpurnar hennar Elísabetar Gunnarsdóttur í Kristianstads DFF urðu að sætta sig við 0-3 tap á útivelli á móti Kopparbergs/Göteborg FC en liðin voru fyrir leikinn jöfn að stigum í fjórða og fimmta sæti deildarinnar.

Margrét Lára Viðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Sif Atladóttir voru allar í byrjunarliði Kristianstad í dag en tókst ekki frekar en félögum þeirra að koma í veg fyrir að Anna Ahlstrand kom Kopparbergs/Göteborg í 1-0 á 27. mínútu. Christen Press bætti sóðan við öðru marki á 72. mínútu og Yael Averbuch innsiglaði síðan sigur Kopparbergs/Göteborg á 89. mínútu.

Edda Garðadóttir og félagar í Örebro urðu að sætta sig við 2-3 tap á heimavelli á móti Linköping en Örebro þurfti nauðsynlega á stigum að halda í fallbaráttunni. Edda lék allan leikinn með Örebro og krækti sér í eitt gult spjald í fyrri hálfleik.

Örebro komst yfir á móti Linköping eftir hálftíma en fékk síðan tvö mörk á sig með þriggja mínútna millibili og var 1-2 undir í hálfleik. Örebro jafnaði leikinn aftur í seinni hálfleik en sjö mínútum síðar tryggði Mariann Gajhede Knudsen Linköping öll þrjú stigin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×