Skoðun

Loksins Kastljós!

Pétur Gunnarsson skrifar
Umfjöllun Kastljóss um Raufarhöfn miðvikudaginn 24. október sl. sætti tíðindum. Stórtíðindum. Vandkvæði þessa bæjarfélags höfðu farið inn um annað eyrað og út hitt í umræðu undanfarinna daga. En nú brá svo við að sjónvarpið sendi frétta- og tökumann á vettvang til að hafa tal af bæjarbúum í eigin persónu og leiða okkur hinum staðhætti fyrir sjónir. Og sú sjón var stúdíósögu ríkari. Fyrrum stöndugt bæjarfélag hafði með viti firrtum fjármálagerningi glutrað frá sér bjargarmeðulunum og í kjölfarið misst frá sér fjórðung íbúanna. Eins og Reykjavík í smámynd.

Það var eitthvað ofurraunsætt við þessa umfjöllun, við erum svo vön því að landsbyggðin sé utan sjónvarpsgeislans, því þótt Landinn hafi stóraukið upplifun okkar af þjóðinni þá er það fólk í sparifötunum og flíkar ekki vandkvæðum sínum á sunnudegi. Þetta var í miðri viku. Og svona ætti að vera hvert einasta kvöld. Að leyfa sjónvarpsgeislanum að nema allt landið, sem er áreiðanlega nauðsynlegur þáttur í að halda öllu landinu í byggð.

Mér kæmi jafnvel ekki á óvart þótt byrjað hafi að rofa til á Raufarhöfn í kjölfarið, að fyrirtæki og félagasamtök hafi séð þar tækifæri til að eignast orlofshús, listamenn vinnuaðstöðu og einstaklingar sumarathvarf.

Já, hver veit nema að í þessu Kastljósi felist leiðsögn fyrir Ísland allt: að byrjun á lausn hvers vanda felist í að sjá hann?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×