Skoðun

Nýtt upphaf án Ólafs Stefánssonar

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Það er staðreynd að handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson hefur leikið sinn síðasta landsleik fyrir Ísland. Ólafur hefur verið lykilmaður í landsliðinu allt frá því hann lék á sínu fyrsta stórmóti, heimsmeistaramótinu sem fram fór á Íslandi árið 1995. Ólafur var fyrirliði landsliðsins sem lék til úrslita á Ólympíuleikunum í Peking og hann var einnig fyrirliði þegar liðið náði bronsverðlaunum á Evrópumeistaramótinu í Austurríki árið 2010. Skarðið sem Ólafur skilur eftir verður erfitt að fylla enda er Ólafur af mörgum talinn vera einn besti handboltamaður allra tíma.

Það voru fleiri stórir vendipunktar hjá íslenska handboltalandsliðinu á árinu 2012. Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari liðsins, hætti störfum að loknum Ólympíuleikunum í London sl. sumar þar sem liðið var hársbreidd frá því að komast í undanúrslit. Silfurverðlaunin á ÓL í Peking árið 2008 og bronsverðlaunin á Evrópumeistaramótinu í Austurríki árið 2010 standa upp úr á farsælum þjálfaraferli Guðmundar með íslenska karlalandsliðið. Undir hans stjórn setti liðið ný viðmið og braut niður hindranir sem höfðu áður staðið í vegi.

Aron Kristjánsson tók við af Guðmundi og þar kemur til sögunnar ungur þjálfari sem sækir reynslu sína og hugmyndafræði frá Danmörku. Aron lék um árabil með danska liðinu Skjern þar sem Anders Dahl-Nielsen var þjálfari. Nýtt upphaf bíður því íslenska handboltalandsliðsins á næsta stórmóti þegar heimsmeistaramótið hefst á Spáni 11. janúar á næsta ári. Nýr þjálfari og Ólafur Stefánsson ekki til staðar.

Kvennalandsliðið í handknattleik komst „bakdyramegin" inn í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins sem fram fór í Serbíu í desember á þessu ári. Ísland náði ekki að landa sigri á EM, líkt og á Evrópumeistaramótinu í Danmörku árið 2010. Kjarni liðsins er ungur og liðið á framtíðina fyrir sér og er líklegt til þess að halda uppi merkjum Íslands á stórmótum í framtíðinni.

Ótrúleg sigurganga hjá Kiel

Handknattleiksþjálfarinn Alfreð Gíslason náði ótrúlegum árangri með þýska liðið Kiel á árinu 2012. Undir hans stjórn vann Kiel alla 34 leiki sína í deildarkeppninni sem er einsdæmi í sögu þýsku deildarkeppninnar. Kiel varð einnig bikarmeistari og fór þar ósigrað í gegnum tímabilið. Loks hampaði liðið Evrópumeistaratitlinum í lok maí með 26-21 sigri gegn spænska liðinu Atleticó Madríd. Þetta var í þriðja sinn sem Alfreð nær þessum titli sem þjálfari, í annað sinn hjá Kiel en Magdeburg varð Evrópumeistari undir hans stjórn árið 2002. Árangur Alfreðs með lið Kiel á leiktíðinni 2011-2012 verður seint leikinn eftir og í þessu liði lék landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson stórt hlutverk.

Íslenskir handboltaþjálfarar hafa sett mark sitt á þýska handboltann á undanförnum misserum og þar fara Alfreð, Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðarson fremstir í flokki. Það er tekið eftir árangri þeirra og ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að þeir koma allir frá „litla" Íslandi. Íslenskir þjálfarar eru vel að sér í faginu og hafa náð tökum á viðfangsefninu með mikilli þekkingu, reynslu, elju og vinnusemi.

Ekki má gleyma árangri norska kvennalandsliðsins í þessu samhengi undir stjórn Þóris Hergeirssonar. Liðið fékk silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu sem lauk í desember eftir að hafa unnið Ólympíumeistaratitilinn í London í sumar.

Markamet og nýtt afl

Lars Lagerbäck, þjálfari A-landsliðs Íslands í knattspyrnu, er með stórskemmtilegt lið í höndunum sem gæti á næstu árum skrifað nýja kafla í knattspyrnusögu Íslands. Það eru bundnar miklar vonir við Lagerbäck og að honum takist með reynslu sinni og þekkingu að koma liðinu á hærri stall. Kjarni íslenska A-landsliðsins er fyrsta kynslóð leikmanna sem hefur alist upp við betri æfingaaðstöðu en aðrar kynslóðir áttu kost á. Og fyrr eða síðar mun Ísland ná alla leið í úrslit á stórmóti. Til þess þarf Ísland að eiga sex til sjö leikmenn sem ná á sama tíma á þann stall sem Eiður Smári Guðjohnsen náði á sínum tíma sem leikmaður Chelsea og Barcelona.

Einn af vendipunktum ársins 2012 er sú staðreynd að fjölmargir landsliðsmenn voru „sjóðheitir" með liðum sínum víðs vegar um Evrópu. Alfreð Finnbogason hjá hollenska liðinu Heereven fór þar fremstur í flokki og skoraði 34 mörk í 48 leikjum, þar af 32 mörk í 42 leikjum fyrir félagslið. Þar með bætti hann 33 ára gamalt markamet Péturs Péturssonar sem skoraði 32 mörk í 45 leikjum árið 1979.

Hér á Íslandi náði Tryggvi Guðmundsson að skrifa nýjan kafla í knattspyrnusöguna. Tryggvi bætti markamet sem Ingi Björn Albertsson hafði átt frá árinu 1987 þegar hann skorað sitt 126. mark í efstu deild. Tryggvi bætti markametið í 3-1 sigri ÍBV á Hásteinsvelli með skoti beint úr aukaspyrnu og þar með hafði hann skorað sitt 127. mark í efstu deild á ferlinum. Alls hefur Tryggvi skorað 129 mörk í efstu deild á Íslandi. Met Tryggva er merkilegt fyrir þær sakir að hann lék í sjö ár sem atvinnumaður í Skandinavíu á hápunkti ferilsins.

Kvennalið Þórs/KA náði að breyta valdajafnvæginu í íslenskum kvennafótbolta á síðasta tímabili. Akureyrarliðið landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í efstu deild í kvennaflokki. Stjarnan úr Garðabæ hafði árið áður rofið margra ára sigurgöngu Vals sem hafði fagnað þessum titli í sex skipti á sjö ára tímabili. Meistaratitill Þórs/KA er að mínu mati einn af stóru vendipunktum íþróttaársins 2012 og ljóst að bætt æfingaaðstaða liða á landsbyggðinni skilar árangri.

Kvennalandsliðið í fótbolta náði þeim frábæra árangri að tryggja sér keppnisrétt í úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins sem fram fer í Svíþjóð næsta sumar. Þetta er í annað sinn sem Ísland er á meðal þeirra þjóða sem leika í lokakeppni EM en ísinn var brotinn árið 2009 þegar Ísland komst í fyrsta sinn á EM. Árangur Íslands hefur vakið athygli og liðið hefur skipað sér í fremstu röð í Evrópu þar sem liðið er í 15. sæti á FIFA-stigalistanum.

Auðunn sterkur á HM

Kraftlyftingamaðurinn Auðunn Jónsson náði frábærum árangri á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Suður-Ameríku í nóvember. Hann setti heimsmet í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 361,5 kg. Auðunn, sem keppir fyrir Breiðablik, endaði í áttunda sæti í heildarkeppninni.

Haraldur Franklín Magnús, afrekskylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, náði eftirtektarverðum árangri á árinu 2012. Haraldur Franklín sigraði á Íslandsmótinu í holukeppni sem fram fór á Leirdalsvelli hjá GKG og hann bætti um betur þegar hann fagnaði sigri á Íslandsmótinu í höggleik sem fram fór á Hellu. Þar með lauk 27 ára bið GR eftir Íslandsmeistara í höggleik í karlaflokki en Sigurður Pétursson landaði þeim titli síðast fyrir GR árið 1985.

Evrópumeistaratitill kvennalandsliðsins í hópfimleikum var einn af hápunktum íþróttaársins. Og það er ljóst að Ísland skipar sér í fremstu röð í ört vaxandi íþróttagrein. Hópfimleikar eru að verða fjölmennasta íþróttagreinin sem stunduð er af konum hér á landi – og framtíðin er björt þar á bæ.

Að lokum vil ég minnast á þá staðreynd að Körfuknattleikssamband Íslands sendi A-landslið í karla- og kvennaflokki til keppni á ný eftir tveggja ára hlé. Á sínum tíma tók KKÍ þá ákvörðun að senda ekki A-landsliðin til keppni vegna fjárskorts. Það er umhugsunarefni að þátttaka landsliða sé undir því komið að forsvarsmenn sérsambands nái að landa stórum styrktarsamningum við einkafyrirtæki. Fjárhagslegur stuðningur frá hinu opinbera við íslenskt afreksfólk í íþróttum hefur lítið breyst þrátt fyrir að skref hafi verið tekin í rétta átt. Á því sviði er enn verk að vinna og kannski verður árið 2013 lykilár í því samhengi.




Skoðun

Sjá meira


×