Fótbolti

Katrín hjálpaði löndum sínum hjá Malmö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir.
Katrín Jónsdóttir. Mynd/NordicPhotos/Getty
Katrín Jónsdóttir og félagar hennar í Umeå höfðu áhrif á baráttuna um sænska meistaratitilinn þegar þær náðu 2-2 jafntefli á móti Tyresö í kvöld. Tyresö tryggði sér stig með því að jafna leikinn ellefu mínútum fyrir leikslok.

Umeå hjálpaði með þessu toppliði LdB FC Malmö sem hefur nú fjögurra stiga forskot á Tyresö þegar fjórar umferðir eru eftir af mótinu. Þóra Björg Helgadóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir spila einmitt með Malmö-liðinu.

Tyresö vann titilinn á dramatískan hátt í fyrra eftir mikla baráttu við lið Þóru og Söru en Malmö-stelpurnar unnu hinsvegar árið á undan.

Lina Hurtig kom Umeå tvisvar yfir í leiknum, á 6. og 51. mínútu en Kirsten van de Ven jafnaði fyrst á 8. mínútu og hin unga Caroline Graham Hansen tryggði Tyresö eitt stig eftir stoðsendingu frá Mörtu.

Katrín Jónsdóttir spilaði allan leikinn í miðri vörn Umeå en liðið er nú í sjötta sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×