Fótbolti

Guðbjörg búin að vinna fyrsta titilinn með Potsdam

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty
Guðbjörg Gunnarsdóttir var ekki lengi að landa fyrsta titlinum eftir að hún gekk til liðs við þýska stórliðið Turbine Potsdam nú um áramótin.

Liðið varð þýskur innanhússmeistari í dag eftir sigur á Frankfurt í úrslitaleiknum. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 1-1, en Potsdam hafði betur eftir vítasyrnukeppni, 6-5.

Mótið fór fram í Magdeburg um helgina og tæplega fimm þúsund áhorfendur fylltu höllina fyrir úrslitaleik dagsins.

Potsdam lenti reyndar í vandræðum í riðlakeppninni eftir að hafa tapað fyrir bæði Essen og Leverkusen. Liðið vann þó Sindelfingen örugglega, 6-0, og komst þannig í 8-liða úrslitin.

Guðbjörg og félagar unnu þar 3-2 sigur á Jena og hefndu ófaranna gegn Leverkusen með 4-3 sigri í undanúrslitunum.

„Ég er ekki svo vön því að spila innanhúss. Í Svíþjóð og Noregi þar sem ég hef spilað undanfarin ár er lítið um innanhússfótbolta,“ sagði Guðbjörg í viðtali á heimasíðu Potsdam á dögunum. Guðbjörg hafði þá nýlokið æfingu með liðinu innandyra og taldi æfinguna hafa gengið þokkalega.

„Þetta var að minnsta kosti virkilega gaman,“ sagði Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×