Fótbolti

Gylfi Þór: Seinni hálfleikurinn ekki nógu góður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór með boltann í Cardiff í kvöld.
Gylfi Þór með boltann í Cardiff í kvöld. Vísir/EPA
„Þetta var bara svona la-la,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta, við Vísi um frammistöðu Íslands eftir 3-1 tapið gegn Wales í kvöld.

Eins og landsliðsþjálfarinn var hann ánægður með fyrri hálfleikinn en ekki jafnkátur með þann síðari þar sem Wales skoraði tvö mörk og tryggði sér sigurinn.

„Það gekk allt mikið mun betur í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik voru menn alltof djúpir og við áttum erfitt með að spila boltanum,“ sagði Gylfi Þór.

„Við pressuðum þá aðeins framar í fyrri hálfleik og vorum að vinna boltann á þeirra vallarhelmingi. Við sóttum meira og spiluðum boltanum betur á milli okkar.“

„Það var allt annað í gangí í seinni hálfleik. Þetta var náttúrlega æfingaleikur þannig við gerðum breytingar til að rúlla á liðinu og leyfa mönnum að spila.“

„Persónulega fannst mér þetta ganga betur í fyrri hálfleik þegar ég og Aron vorum á miðjunni. Við náum vel saman. Þá vorum við að spila boltanum betur og sækja meira,“ sagði Gylfi Þór.

Gareth Bale fór á kostum í leiknum í kvöld en hann skoraði eitt mark og lagði upp tvö. Hann var í raun munurinn á liðunum tveimur.

„Hann gerði gæfumuninn. Án hans væru þeir ekki nærri því jafnsterkir og þeir eru núna. Hann er svo fljótur að það er erfitt að verjast honum ef hann fer af stað,“ sagði Gylfi sem var ekkert sérstaklega kátur með úrslitin í leiknum.

„Auðvitað eru ekki úrslitin ekki góð en þau skipta ekki mestu máli. Seinni hálfleikurinn var bara ekki nógu góður hjá okkur. Þjálfararnir voru auðvitað að skoða ýmislegt eins og Theódor í hægri bakverðinum og svo gerðum við breytingar í hálfleik. Þetta er gott tækifæri fyrir þjálfarana til að prófa sig áfram,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×