Enski boltinn

McIlroy mætir til að horfa á Gylfa laugardaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy með bikarinn.
Rory McIlroy með bikarinn. Vísir/Getty
Kylfingurinn Rory McIlroy er að spila frábærlega þessa dagana en Norður-Írinn tryggði sér sigur á PGA-meistaramótinu í golfi í gærkvöldi og hefur þar með unnið tvö risamót í röð.

McIlroy, sem er 25 ára gamall, sagði eftir sigurinn að hann væri að spila sitt besta golf á ferlinum og að hann hefði ekki séð svona sumar fyrir í sínum villtustu draumum.

„Nú fæ ég vikufrí og ég ætla að njóta þess," sagði Rory McIlroy við BBC en hann ætlar að mæta á leik Manchester United og Swansea City á laugardaginn sem er fyrsti leikur ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu. Gylfi Þór Sigurðsson verður vonandi í aðalhlutverki á miðju Swansea í leiknum.

„Ég veit ekki hvort ég má sýna bikarana á Old Trafford en ég mun reyna," sagði McIlroy í léttum tón.

McIlroy er mikill stuðningsmaður Manchester United og hann bíður spenntur eftir komandi tímabili eins og flestir stuðningsmenn United. Þeir búast margir við því að nýi knattspyrnustjórinn Louis van Gaal komi liðinu aftur á toppinn eftir afar dapurt tímabil í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×