Fótbolti

Kolbeinn: Býst við að geta spilað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson verður að öllum líkindum klár í slaginn þegar Ísland mætir Tyrklandi í undankeppni Evrópumótsins 2016, en Kolbeinn hefur glímt við meiðsli.

„Þetta leggst vel í okkur og vonandi verður þetta skemmtilegur leikur. Hann verður ansi erfiður, en þetta leggst vel í hópinn," sagði Kolbeinn við Vísi í morgun.

„Tyrkir eru góð fótboltaþjóð og eru vel spilandi lið. Við þurfum að verjast vel svo við fáum ekki á okkur mörk."

„Það er mjög mikilvægt að byrja með sigri. Við náðum sigri í fyrsta leiknum fyrir tveimur árum síðan þegar við unnum Noreg og það gaf okkur mikið. Við reynum klárlega að ná sigri í fyrsta leik og það mun hjálpa fyrir framhaldið."

Allar líkur eru á því að Laugardalsvöllur verði fullur á þriðjudaginn og Kolbeinn er ánægður með það.

„Það er skemmtilegt að finna það að það er mikil tilhlökkun og stuðningur fyrir leiknum. Það standa allir með okkur í þessu og það er frábært."

„Að fá góðan stuðning og finna fyrir honum er miklu betra. Fullur völlur mun alltaf hjálpa okkur."

„Það þarf allt að smella eins og hjá Íslandi ef við ætlum að ná í stig eða sigur. Við þurfum að skora mörk og varnarleikurinn þarf að vera góður. Rétt stemning í liðinu getur skopið sigur."

Kolbeinn hefur glímt við meiðsli undanfarið, en býst við því að verða klár á þriðjudaginn.

„Ég æfði í gær og það gekk mjög vel. Vonandi verð ég góður næstu daga líka. Ég er bjartsýnn."

„Ef ég helst heill næstu daga býst ég við að geta spilað allan leikinn, en ég ætla sjá hvernig ég verð núna í dag og á morgun. Eins og ég var í gær þá býst ég við að geta spilað," sagði Kolbeinn við fjölmiðla að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×