Bíó og sjónvarp

Líf eftir kjarnorkusprengjur

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Frakkar stunduðu fjölmargar kjarnorkuvopnatilraunir í S-Kyrrahafi.
Frakkar stunduðu fjölmargar kjarnorkuvopnatilraunir í S-Kyrrahafi.
Helgi Felixson og sænski leikstjórinn Titti Johnson hafa undanfarin ár unnið að heimildarmyndinni Vive la France, sem frumsýnd var á RIFF 28. september. 

Myndin segir frá parinu Kua og Teriki sem búa á eyjunni Tureia í frönsku Pólýnesíu í S-Kyrrahafi. Eyjan er ekki langt frá Moruroa-baugeyjunni þar sem Frakkar stunduðu fjölmargar kjarnorkuvopnatilraunir frá 1966-1996. Hægt verður að sjá myndina næstkomandi laugardag, 4. október í Háskólabíó.

„Við fylgdum þessu fólki í hversdagslífi þess og skoðuðum nokkrar kynslóðir til baka, og hverjar afleiðingar sprenginganna hafa verið,“ segir Helgi en sjö ættingjar Teriki hafa látist úr krabbameini, þar á meðal faðir hans. Í myndinni kemst parið meðal annars að því að barnið þeirra sé veilt fyrir hjarta.

„Yfirleitt er það fjöldi fólks þar sem fær krabbamein. Ein tala segir að í 80% tilvika þar sem eyjarskeggjar fái krabbamein tengist það sprengingum Frakka beint.“

Að sögn Helga hefur eitt helsta vandamálið verið að fá Frakka til að viðurkenna sambandið þar á milli. „Þeir telja að þetta hafi ekki verið sannað nægilega þannig að það sé ekkert samband þar á milli. Að þeir séu með svona fín kjarnorkuvopn sem eru bara eins og frönsk vín. Þeir hafa ekki viljað viðurkenna þetta. Því fylgir að þeir þurfi að borga skaðabætur og ýmislegt. Þeir eru í algerri höfnun.“

Þá er talin hætta á að Moruroa gæti fallið saman og valdið gríðarlegum flóðbylgjum sem myndi færa Tureia og aðrar eyjar í kaf. Talið er að mörg tonn af plútóníumi sé að finna undir Moruroa sem muni ógna öllu Kyrrahafssvæðinu á næstkomandi öldum.

Myndin hefur farið sannkallaða sigurför um kvikmyndahátíðir heimsins en hún verður sýnd í byrjun október á Science Film Festival í París, þar á eftir á Chicago International Film Festival, Human Rights Film Festival í Litháen, og Toronto Enviromental Festival.

Eftir frumsýninguna á RIFF fer hún í almennar sýningar hjá Bíói Paradís. „Það rignir inn hátíðum núna,“ segir Helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×