Handbolti

Guðjón Valur má ekki segja hvert hann er að fara

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það bendir margt til þess að Guðjón sé á leiðinni til Spánar.
Það bendir margt til þess að Guðjón sé á leiðinni til Spánar. Vísir/Bongarts
„Það er allt klappað og klárt hjá mér. Ég er búinn að fara í læknisskoðun og skrifa undir samning,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson en hann mun söðla um í sumar: Yfirgefa herbúðir Þýskalandsmeistara Kiel, en hvert er hann að fara?

„Ég má því miður ekki segja það fyrr en í lok tímabilsins. Væntanlegir vinnuveitendur mínir báðu mig um að segja ekkert frá því fyrr en tímabilið er búið.“

Það hefur verið þrálátur orðrómur um að Guðjón sé á leið til spænska stórliðsins Barcelona. Staðarblaðið El Mundo Deportivo hélt því fram meðan á EM stóð að Guðjón Valur myndi ganga í raðir félagsins.

Honum er ætlað að fylla skarð Juanin sem fær ekki nýjan samning hjá félaginu en hann hefur skilað frábæru starfi þar undanfarin ár.

Fréttablaðið freistaði þess að fá það staðfest hjá Barcelona að það væri félagið sem landsliðsfyrirliðinn hefði samið við.

„Það er stefna félagsins að greina aldrei frá því meðan á tímabili stendur hvaða leikmenn séu að koma og hverjir eru að fara. Það gerum við af virðingu við leikmennina og félögin sem við erum að semja við. Það fæst því ekkert staðfest hjá okkur fyrr en í lok tímabilsins,“ sagði Gustau Galvache, fjölmiðlafulltrúi Barcelona, í samtali við Fréttablaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×