Skoðun

Jákvæð teikn á lofti í íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi

Vísindamenn skrifa skrifar
Rannsóknaþing Vísinda- og tækniráðs (VT) var haldið föstudaginn 29. ágúst. Meginefni þingsins var umfjöllun um úttekt á íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi. Úttektin var framkvæmd af óháðum sérfræðingahóp frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að beiðni íslenskra stjórnvalda.

Það krefst hugrekkis af stjórnvöldum að opna dyrnar fyrir utanaðkomandi mati á þennan hátt og horfast í augu við veruleikann í íslensku nýsköpunarumhverfi. Með þessu hafa íslensk stjórnvöld stigið fyrsta skrefið í uppbyggingu trausts í kerfinu og sýnt vilja sinn til úrbóta á ótvíræðan hátt. Í raun má segja að samkeppnishæfi Íslands á alþjóðavettvangi sé í húfi og í skýrslunni er réttilega bent á að framtíðar samfélags- og hagvöxtur á Íslandi muni byggja á vísindum, tækni og nýsköpun.

Jafnframt er ljóst að úttekt á vísinda- og nýsköpunarumhverfinu er þegar farin skila sér og birtist sú staðreynd í Stefnu og aðgerðaáætlun VT 2014-2016. Þetta er í fyrsta skipti sem ítarleg aðgerðaáætlun er lögð fram í kjölfarið á stefnu VT. Stjórnvöld hafa nú þegar sýnt frumkvæði og vilja sinn til að svara kalli úttektarinnar um að tími sé kominn til að axla ábyrgð á stefnumótun í vísindum, tækni og nýsköpun og að aðgerða sé þörf.

Slær hárréttan tón

Íslenskt vísinda- og nýsköpunarsamfélag tekur þessu viðhorfi stjórnvalda fagnandi. Á þinginu mátti berlega skynja samtalstón á milli vísindasamfélagsins og ráðamanna sem endurspeglaðist meðal annars í pallborðsumræðum um skýrsluna. Skýrslan er mjög opinská og hreinskilin og slær hárréttan tón sem lýsir þeim óróa og örvæntingu sem gætt hefur í íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi. Hún verður því mikilsverður grunnur að því uppbyggingarstarfi sem nú er fram undan.

Skipta má niðurstöðu úttektarinnar í þrennt. Í fyrsta lagi bendir hópurinn á knýjandi þörf á pólitískri skuldbindingu og framkvæmdum. Þörf sé á viðhorfbreytingu hjá stjórnvöldum, þar sem tilhneiging sé til þess að líta á útgjöld til rannsókna og nýsköpunar sem kostnað frekar en fjárfestingu. Sérfræðihópurinn lagði að auki fram tillögur og áætlun um það hvernig gera megi kerfið skilvirkara og sveigjanlegra, meðal annars með því að sameina stofnanir og auka samvinnu á milli þeirra.

Það var því sannarlega uppörvandi að heyra á orðum bæði forsætis- og menntamálaráðherra á fundinum að fram undan væri mikil sókn í fjárfestingum í íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi. Fyrsta skrefið er tekið í nýkynntum fjárlögum ársins 2015 með 800 milljóna króna aukningu á fjárframlögum til samkeppnissjóða VT. Samkvæmt Stefnu og aðgerðaráætlun VT er stefnt á tveggja milljarða króna aukningu til viðbótar árið 2016.

Í öðru lagi hvatti hópurinn til þess að allir aðilar í íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi, háskólar, stofnanir, fyrirtæki og stjórnsýsla, tækju sameiginlega ábyrgð á breytingum sem stuðlað gætu að frekari samvinnu, sameiningu og eflingu kerfisins.

Í þriðja lagi benti hópurinn á þann gríðarlega skort á gögnum sem snúa að því hversu skilvirk og árangursrík stefnumörkun í íslenska kerfinu sé í raun. Í úttektinni er hvatt til þess að árangur sá sem hlýst af stefnumótun verði stöðugt sannreyndur með gögnum og að koma þurfi upp upplýsingakerfi sem mæli árangur stefnumörkunar.

Það yrði vissulega jákvæð þróun að koma slíku kerfi á fót. Þó eru ýmsar hættur sem ber að varast og þá sérstaklega að í slíku kerfi verði magn metið umfram gæði. Sú tilhneiging er þegar mjög sterk í íslenska kerfinu og því þarf að stokka matskerfi íslenskra stofnana upp frá grunni frekar en að byggja á því sem fyrir er.

Sanngjarnari aðferð

Við uppbyggingu á matskerfi á íslenskum vísindum hlýtur að vera farsælast að byggja á jafningjamati eins og tíðkast alþjóðlega þar sem metnaður er í fyrirrúmi við mat á árangri og skilvirkni í vísindum og nýsköpun. Vísindin eru síbreytileg og því ber að varast að setja fyrirfram ákveðna mælistiku á þau. Jafningjamat er vissulega erfiðara í framkvæmd en einföld talning á birtum greinum, skýrslum og fjölda útskrifaðra nemenda, en er jafnframt mun sanngjarnari og árangursríkari aðferð til þess að meta vísindastarf og hvetja til metnaðar.

Jákvæð teikn eru á lofti í íslensku vísinda- og nýsköpunarumhverfi. Stjórnvöld hafa sýnt mikilsvert frumkvæði með ytri úttekt á kerfinu, ásamt því að leggja fram aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs og væntanleg framlög úr ríkissjóði. Það hefur almennt ríkt þverpólitísk samstaða um mikilvægi vísinda, tækni og nýsköpunar á Íslandi og erum við því bjartsýn á að fyrirhuguð aukning í samkeppnissjóðina á fjárlögum verði samþykkt af Alþingi.

Höfundar eru stjórnarmenn í Vísindafélagi Íslendinga.




Skoðun

Sjá meira


×