Skipulagsstofnun ákvað í gær að fallast ekki á tillögu Vegagerðarinnar vegna nýrrar veglínu um Teigsskóg. Telur Skipulagsstofnun að ný veglína sé of lík þeirri veglínu sem Hæstiréttur sló út af borðinu árið 2009. Með úrskurði Skipulagsstofnunar munu íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum þurfa að bíða enn um sinn eftir bættum vegasamgöngum.

Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, er afar ósáttur við úrskurð Skipulagsstofnunar frá því í gær um að setja vegtengingu um Teigsskóg aftur í bið. Hann vill að tekið verði fram fyrir hendur Skipulagsstofnunar og að Alþingi setji sérlög svo Vegagerðin geti hafist handa við nýjan veg um Teigskóg sem Vestfirðingar hafa beðið lengi eftir. „Það er í sjálfu sér gott að þetta óralanga ferli embættismannanna sé loksins komið á endastöð. Nú er það einfaldlega pólitísk spurning hvort öryggi íbúanna og framtíð byggðar á sunnanverðum Vestfjörðum skipti minna máli en 1% af kjarrlendinu sem gengur undir nafninu Teigsskógur,“ segir Þóroddur. Nú sé það Alþingis að setja sérlög um nýjan veg.