Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að með breyttum veðuraðstæðum í vetur geti brennisteinsdíoxíðmengun frá eldgosinu í Holuhrauni orðið enn hvimleiðari en hingað til – ekki síst í froststillum. Árstíðasveifla mælinga á mengun hér á landi sýni þetta ótvírætt.

Þá bendir Þorsteinn á til samanburðar að fyrir eldgosið hafi hæstu mælingar á brennisteinsdíoxíði verið um 200 míkrógrömm við Grundartanga. Hins vegar hafi gasmengun mælst 90.000 míkrógrömm í eftirlitsflugi við Vatnajökul, og slegið í 130.000 míkrógrömm á mæli vísindamanns við eldstöðina.
Spurður um þýðingu þessa fyrir höfuðborgarsvæðið, og önnur svæði þar sem svifryk hefur ítrekað verið vandamál að vetri, segir Þorsteinn að þegar gosmengunin fari saman við svifryk þá geti komið upp ný staða varðandi loftgæði.
„Áhrif af hverju og einu efni hafa verið rannsökuð. Samlegðaráhrif fleiri loftmengunarefna á heilsu geta verið mikil, enda magna þau hvert annað upp. Þessi kokteill hefði enn meiri heilsufarsáhrif en erfitt er að segja hversu mikil nákvæmlega,“ segir Þorsteinn.