Handbolti

Óvissa um þátttöku Sverre á HM í Katar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverre segir að það þurfi margt að ganga upp svo hann komist á HM í Katar með landsliðinu.
Sverre segir að það þurfi margt að ganga upp svo hann komist á HM í Katar með landsliðinu. fréttablaðið/stefán
Ekki er víst að Sverre Andreas Jakobsson geti gefið kost á sér í íslenska landsliðið fyrir HM í Katar sem hefst í næsta mánuði. Þetta sagði hann í samtali við Fréttablaðið.

„Ég er í þeirri stöðu að ég á erfitt með að hoppa frá mínum skuldbindingum á Akureyri í heilan mánuð,“ segir Sverre sem er bæði leikmaður og aðstoðarþjálfari Akureyrar auk þess sem hann er í fullri vinnu.

„Ég veit auðvitað ekki hvort ég verð valinn í landsliðshópinn en auðvitað væri gaman að fara með út og ljúka landsliðsferlinum á þessu móti. En þetta er ekki jafn einfalt og þetta var þegar maður var atvinnumaður í Þýskalandi. Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga nú.“

Hann segist þó reiðubúinn að leggja sitt af mörkum verði þess óskað en Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari valdi Sverre í síðustu landsliðsverkefni Íslands.

„Ég tel mig enn hafa ýmislegt fram að færa og er tilbúinn að spila áfram með landsliðinu. En það er ljóst að það þarf ýmislegt að ganga upp ef það er áhugi á því af hálfu þjálfarans.“

Hann staðfesti einnig að þýska úrvalsdeildarfélagið Lemgo hafi áhuga á að semja við hann en að ólíklegt sé að hann geti tekið tilboði félagsins, vegna skuldbindinga sinna á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×