Flugvélin TF-KEX lagði upp frá Reykjavíkurflugvelli og brotlenti í Langholtsfjalli 1. apríl 2010. Um borð voru þrír farþegar auk Marteins sem flaug vélinni. Marteinn og einn farþeganna voru hvor í sínu lagi að velta fyrir sér að taka flugvélina á leigu og höfðu fengið hana til prufuflugs. Hinir farþegarnir tveir voru á vegum Marteins.
Fjallað var um niðurstöðu rannsóknarnefndar flugslysa í Fréttablaðinu 8. nóvember í fyrra:
„Flugmaðurinn flaug vélinni ítrekað lágt yfir sumarhús í Heiðarbyggð í Langholtsfjalli nálægt Flúðum þar til hann fann bústað sem ættingjar hans dvöldust í og flaug beint yfir húsið. Er hann hugðist taka U-beygju til baka hrapaði vélin til jarðar og brotlenti á mosavöxnum hrygg,“ sagði í Fréttablaðinu.
![](https://www.visir.is/i/9E236056517DEA8C31DBF4395BD5C973BB8756316F68C891D0E2FFAAF4EEE4F9_713x0.jpg)
Eftir rannsókn lögreglu á málinu gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur Marteini fyrir brot á loftferðalögum og reglum með því að hafa ekki gætt nægrar aðgæslu við undirbúning og stjórn flugvélarinnar yfir sumarhúsabyggðinni. Hann hafi enga reynslu af að fljúga slíkri flugvél og ekki gert tilskylda massa- og jafnvægisútreikninga.
Síðan hafi hann flogið „vélinni yfirhlaðinni, í lítilli hæð yfir sumarhúsabyggðinni, á eða við ofrishraða, í krappri beygju í sterkum hviðóttum vindi svo flugvélin missti hraða og hæð og skall í jörðina með þeim afleiðingum að farþegarnir þrír slösuðust og flugvélin eyðilagðist“.
Hinn prufuflugmaðurinn, sem Marteinn þekkti ekki fyrir flugið, krefst einnar milljónar króna í miskabætur frá Marteini. Ríkissaksóknari krefst þess að hann verði dæmdur til refsingar.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudag. Þar neitaði Marteinn sök. Hann hefur nú frest út janúar til að skila greinargerð í málinu. Að þeim tíma liðnum verða skipaðir meðdómendur og framhald málsins ákveðið.
![](https://www.visir.is/i/9FE6C5638F2FE605F39079C250D028635409C7A4150F3788A58867A178ADFAF6_713x0.jpg)