Innlent

Gunnar Bragi ekki úti í kuldanum eins og utanríkisráðherra Svíþjóðar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
"Ráðherra hefur í tvígang átt fundi með ísraelskum ráðamönnum, í tengslum við fundi Sameinuðu þjóðanna,“ segir í svari ráðuneytisins.
"Ráðherra hefur í tvígang átt fundi með ísraelskum ráðamönnum, í tengslum við fundi Sameinuðu þjóðanna,“ segir í svari ráðuneytisins. Vísir/Kristinn
Ísrael hefur ekki sett Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra út í kuldann líkt og ríkið hefur gert við starfssystur hans í Svíþjóð, Margot Wallström. Samskipti Svíþjóðar og Ísraels hafa verið afar stirð eftir að sænska ríkisstjórnin viðurkenndi sjálfstæði Palestínu. Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2011 án þess að það hefði sömu áhrif á samskiptin við Ísrael.

Í gær var greint frá því að hætt hafi verið við fyrirhugaða ferð Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, til Ísrael eftir að ráðamenn í Ísrael lýstu þeirri skoðun sinni að þeir hefðu ekki áhuga á að hitta hana og að veita henni nauðsynlega vernd. Wallström var á leið til Ísraels til að taka þátt í umræðum til minningar um Raoul Wallenberg.

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis segir að Gunnar Bragi hafi átt fundi með ísraelskum ráðamönnum. „Ráðherra hefur í tvígang átt fundi með ísraelskum ráðamönnum, í tengslum við fundi Sameinuðu þjóðanna,“ segir í svari ráðuneytisins. „Ekkert hefur komið fram i samskiptum Íslands og Ísraels sem bendir til þess að íslenskir ráðamenn séu ekki velkomnir til Ísrael,“ segir einnig í svarinu.


Tengdar fréttir

Neita að hitta ráðherrann

Fyrirhugaðri ferð utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, til Ísraels til að taka þátt í umræðum til minningar um Raoul Wallenberg hefur verið aflýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×