Innlent

Margrét Dórót­hea Sig­fús­dóttir er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Dórót­hea Sig­fús­dóttir varð skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur árið 1998 og gegndi því starfi til 2022.
Margrét Dórót­hea Sig­fús­dóttir varð skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur árið 1998 og gegndi því starfi til 2022. Vísir/Vilhelm

Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, er látin, 77 ára að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun þar sem fram kemur að hún hafi látist í faðmi fjölskyldunnar á Háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum í Svíþjóð á föstudaginn.

Margrét fæddist í 10. desember 1947 á Fosshólum í Holtum í Rangárvallasýslu en ólst upp á Selfossi. Að loknu gagnfræðaprófi fór Margrét í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og í Hússtjórnarkennaraskólann og útskrifaðist hún þaðan vorið 1969.

Hún starfaði sem ráðskona á Sjúkrahúsinu á Selfossi og í Hjúkrunarskóla Íslands og fór svo að kenna við Hússtjórnarskóla Reykjavíkur árið 1976. Hún varð svo skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur árið 1998 og gegndi því starfi til 2022 þegar hún hætti sökum aldurs.

Fram kemur í ágripinu í Morgunblaðinu að Margrét hafi á starfsævi sinni kennt einnig ýmis námskeið um land allt og verið einn umsjónarmanna sjónvarpsþáttanna vinsælu, „Allt í drasli“. Þá gaf hún út bók með húsráðum.

Margrét var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2012 fyrir framlag sitt til íslenskra heimilisfræða.

Eftirlifandi eiginmaður Margrétar er Sigurður Petersen, fyrrverandi skipstjóri. Börn þeirra eru Ágústa Berg, fædd 1970, gift Bala Kamallakharan, og Sigfús, fæddur 1975. Barnabörn Margrétar og Sigurðar eru fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×