Innlent

Sóttu mann í ó­göngum á Hólma­tindi

Atli Ísleifsson skrifar
Hólmatindur á Austurlandi. Myndin er úr safni.
Hólmatindur á Austurlandi. Myndin er úr safni. Getty

Björgunarsveitir á Austurlandi og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út eftir boð bárust frá manni sem hafði lent í ógöngum á Hólmatindi í gærkvöldi.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við fréttastofu að seint í gærkvöldi hafi björgunarsveitarmenn við æfingar orðið varir við ljós ofarlega í Hólmatindi, sem er fjall milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.

„Björgunarsveitarfólk sem var að fara á æfingu varð vart við þetta og var þar á ferðinni einn maður sem að hafði ákveðið að bregða sér í fjallgöngu og var kominn í ógöngur. Úr varð nokkur aðgerð að koma aðstoð til hans,“ segir Jón Þór.

Hann segir að það hafi verið mjög kalt þar sem maðurinn var, um tuttugu stiga frost. Þá hafi verið notast við dróna til að koma skilaboðum til mannsins.

Það voru kallaðar út björgunarsveitir bæði frá Eskifirði, Reyðarfirði og Neskaupstað og var göngufólk sem lagði á Hólmatind áleiðis til landsins.

„Hólmatindur er ófrýnilegur, brattur og klettóttur og ekki auðvelt að ganga á hann. Björgunarsveitarfólk komst að lokum til hans, en jafnframt hafði þyrla Gæslunnar verið kölluð til. Hún kom eftir að hafa tekið eldsneyti á Höfn í nótt og náði að hífa manninn upp og niður og fór svo aftur í fjallið og sótti gönguhópana sem þar voru og höfðu verið hjá manninum þar til aðstoð þyrlu barst.“

Foktjón á Ólafsfirði

Jón Þór segir að annars hafi nóttin gengið nokkuð vel.

„Núna í morgunsárið var svo kallað út á Ólafsfirði vegna foktjóns sem þar var að verða. Annars vegar þak á húsi sem var að losna og hins vegar stór rúða sem hafði sprungið. Björgunarsveitin Tindur fór í það að annars vegar tryggja þakið og loka fyrir rúðuna,“ segir Jón Þór.


Tengdar fréttir

Þak flettist af húsi í Sandgerði

Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði var kölluð út á öðrum tímanum í nótt vegna þaks sem var að fjúka af húsi í bænum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×