Innlent

Aðstoðarlögreglustjóri segir niðurstöðu Hæstaréttar mikil vonbrigði

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki sammála niðurstöðu Hæstaréttar sem felldi úr gildi nálgunarbann lögreglu á sambýlismann Juliane Ferguson sem Héraðsdómur hafði áður staðfest. Hún segir að löggjafarvaldið verði að grípa boltann ef lögin nái ekki þeim tilgangi sem til er ætlast.

Stöð 2 talaði í gær við Juliane Ferguson, sem hefur dvalið í Kvennaathvarfinu frá því í nóvember, en hún hefur kært sambýlismann sinn fyrir líkamsárás sem átti sér stað í júlí. Þau deila um forræði tevggja ára dóttur sinnar og íbúð sem er á hennar nafni. Í janúar sendi maðurinn síðan kynlífsmyndband og nektarmyndir til vinnufélaga Juliane.

Heimilt er að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Þrátt fyrir það felldi Hæstiréttur úr gildi nálgunarbann lögreglu á manninn, þótt rökstuddur grunur sé um líkamlegt ofbeldi og hann hafi játað að hafa sent vinnufélögum konunnar kynlífsmyndband og nektarmyndir af konunni. Hæstiréttur telur of langt liðið frá ofbeldinu. Þá segir í dómnum að nálgunarbann gæti ekki komið í veg fyrir slíkt þótt það sé gróft brot á friðhelgi einkalífs.

Alda Hrönn segist telja að Hæstiréttur beiti meðalhófsreglunni þolandanum í óhag, ekki síst með tilliti til þess að heimilisofbeldismál séu mjög tilfinningaþrungin og sjaldan alveg klippt og skorin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×