Bíó og sjónvarp

Anna og Elsa aftur á skjáinn

Sunna Karen Sigþórsdóttir skrifar
Vinsældir Disney-teiknimyndarinnar Frozen virðast engan endi ætla að taka, en myndin er ein sú tekjuhæsta allra tíma. USA Today birti í gær stillur úr nýrri stuttmynd sem nú er í smíðum og ber heitið Frozen Forever. Stuttmyndin er sjö mínútna löng og verður sýnd í Bandaríkjunum hinn 13. mars næstkomandi, rétt áður en ný mynd um Öskubusku verður frumsýnd.

Systurnar Elsa og Anna verða aftur í aðalhlutverki ásamt snjókallinum Ólafi og fjallar myndin um afmælisveislu sem Elsa hyggst halda fyrir systur sína. Áætlanirnar ganga hins vegar ekki sem skildi þegar Elsa fær heiftarlegt kvef og „óvæntir atburðir eiga sér stað“, að því er fram kemur í frétt USA Today. Þá segir leikstjóri stuttmyndarinnar, Chris Buck, að í myndinni fái áhorfendur að sjá áður óþekkta hlið á Elsu prinsessu.

Lagið Let it go úr fyrri mynd Frozen varð afar vinsælt og benda fjölmiðlar ytra á að nýtt lag myndarinnar verði alveg jafn grípandi.  Bæði lögin eru samin af hjónunum Robert Lopez og Kristen Anderson-Lopez.

Teiknimyndin var valin teiknimynd ársins á Óskarnum á síðasta ári og er tekjuhæsta teiknimynd allra tíma. Hagnaður hefur verið gríðarlegur en vestanhafs þénaði myndin um 400 milljónir dollara í miðasölu og um 700 milljónir dollara á heimsvísu. Þá er myndin ein af tíu tekjuhæstu kvikmyndum sögunnar. 


Tengdar fréttir

Frozen vinsælust á Facebook

Disney-teiknimyndin Frozen er sú mynd sem mest var minnst á á Facebook á þessu ári, samkvæmt samfélagsmiðlinum vinsæla.

Fleiri ferðamenn til Noregs vegna Frozen

Frozen er fyrir nokkru orðin tekjuhæsta teiknimynd allra tíma en myndin gerist í ævintýraheimi sem byggir útlitslega á norskri náttúru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×