Innlent

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar gagnrýna stefnubreytingu Samfylkingarinnar

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar gagnrýna stefnubreytingu Samfylkingarinnar varðandi olíuleit á Drekasvæðinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir hana fráleita en mikil uppbygging sé framundan vegna leitarinnar. Hann telur að erfitt gæti orðið að vinna með flokki sem sé á vinstra kanti Vinstri grænna.



Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra segir þessa breytingu ábyrgðarlausa og að Íslendingar gætu bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem fengið hafa leyfi til leitar, ef þessari stefnu yrði fylgt. Hún rifjar upp að Samfylkingin hafi haft ákveðna forystu í málinu og fyrir tveimur mánuðum hafi allir þingmenn flokksins greitt atkvæði með stofnun svokallaðs ríkisolíufélags.



Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir ályktun Samfylkingarinnar um að vinda beri ofan af áformum um olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu engan populísma. Það sé full alvara þar á bak við. Það sé ekkert að því að skipta um skoðun, forsendur hafi breyst og þar megi nefna kolsvarta skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.



Katrín Júlíusdóttir greiddi sjálf atkvæði með tillögunni, eins og reyndar langflestir fundarmenn á Landsfundi Samfylkingarinnar, en hún var iðnaðarráðherra um tíma í stjórnartíð Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×