Innlent

Stóryrt umræða á Alþingi um virkjanakosti

Heimir Már Pétursson skrifar
Hart var tekist á um breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar á Alþingi í dag um að fjölga virkjanakostum úr einum í fimm. Stór orð hafa fallið í umræðunni sem ekki sér fyrir endann á eftir tveggja daga þref.

Allsendis óvíst er hvort tillaga meirihluta atvinnuveganefndar nýtur þingmeirihluta á Alþingi. En Sigrún Magnúsdóttir hefur sett fram efasemdir um tillöguna. Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar sagði í umræðunni „að álit einhvers ráðherra skipti ekki máli“ og var í framhaldi þess sakaður um kvenfyrirlitningu á þinginu í dag.

„Þannig að virðulegur forseti, það eina sem gengur við þessar kringumstæður er að draga breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar til baka og hefja hér umræðu um önnur mál,“ sagði Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna.

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar tók undir þetta. „Við erum hér mörg sem teljum breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar lögleysu,“ sagði hann. Og Róbert Marshall flokksbróðir hans spurði Vigdísi Hauksdóttur þingmann Framsóknarflokksins:

„Er stuðningur við hæstvirtan umhverfisráðherra í þingflokki Framsóknarflokksins? Ég skora á háttvirtan þingmann að gefa merki um það hver staðan er í þessu,“ sagði Róbert.

„ummæli háttvirts þingmanns Jóns Gunnarssonar hér í gær, sem lýstu eins og hér hefur réttilega komið fram kvenfyrirlitningu í garð hæstvirts umhverfisráðherra og líka stækri fyrirlitningu í garð samstarfsflokksins,“ sagði Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.

„Þegar háttvirtur þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, kemur hér upp og sakar mig um að hafa verið með kvenfyrirlitningu í þessu máli finnst mér of langt gengið. Að ég hafi verið með einhverja kvenfyrirlitningu (frammíkall) og hér tekur háttvirtur þingmaður Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar undir það. Þetta er kannski í samræmi við hin nýju stjórnmál sem þessir flokkar boða,“ spurði Jón Gunnarsson.

Umræðan um þetta mikla deilumál stóð fram á miðnætti í gær og tók meira og minna allan fundartíma Alþingis í dag. Það er algerlega ómögulegt að segja hvenær þessari umræðu líkur á þeim örfáu þingfundardögum sem eftir eru á vorþingi en næsti þingfundur er á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×