Fótbolti

Þróttur með fullt hús eftir sigur á Ólsurum í toppslag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gregg Ryder sneri við gengi Þróttar í fyrra og er nú á toppnum með liðið.
Gregg Ryder sneri við gengi Þróttar í fyrra og er nú á toppnum með liðið. vísir/daníel
Þróttur er áfram í toppsæti 1. deildar karla í fótbolta eftir sigur á Víkingi úr Ólafsvík, 2-0, á Þróttaravellinum í kvöld.

Viktor Jónsson, sem er á láni frá Víkingi, skoraði fyrra markið á 66. mínútu, 1-0, eftir að markalaust hafði verið í hálfleik.

Víkingar sakna Viktors svo sannarlega núna eftir að Pape Mamadou Faye ákvað að hætta hjá félaginu, en Viktor byrjar mótið frábærlega og er búinn að skora fimm mörk í fyrstu fjórum leikjunum. Ekki er hægt að kalla hann úr láni.

Oddur Björnsson bætti við öðru marki heimamanna á 85. mínútu, 2-0, en Ólsarar voru ekki búnir að fá á sig mark í fyrstu þremur umferðum Íslandsmótsins.

Þróttur er búinn að vinna fjóra fyrstu leikina í 1. deildinni í sumar með markatölunni 14-1. Liðið er að spila frábærlega undir stjórn Englendingsins Greggs Ryders og er líklegt til að fara upp um deild haldi það svona áfram.

Þróttur verður áfram á toppnum sama hvað gerist í öðrum leikjum, en liðið er með tólf stig eða fullt hús eftir fjóra leiki. KA er með sjö stig eins og Ólsarar en á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×