Viðskipti innlent

WOW air eignast helmings hlut í Gaman Ferðum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bragi Hinrik Magnússon, Skúli Mogensen, Þór Bæring og Engilbert Hafsteinsson.
Bragi Hinrik Magnússon, Skúli Mogensen, Þór Bæring og Engilbert Hafsteinsson. mynd/wow air
WOW air hefur keypt helmingshlut í ferðaskrifstofunni Gaman Ferðum en þessi fyrirtæki hafa unnið saman frá stofnun WOW air. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.

Hjá Gaman Ferðum starfa fjórir starfsmenn en ferðaskrifstofan var stofnuð 2012 af Þóri Bæring Ólafssyni og Braga Hinriki Magnússyni. Þór Bæring Ólafsson verður áfram framkvæmdastjóri Gaman Ferða og Bragi Hinrik Magnússon áfram forstöðumaður hópadeildar. Berglind Snæland er nýr fjármálastjóri Gaman Ferða og forstöðumaður sérferða. Ingibjörg Eysteinsdóttir mun stýra nýrri deild hjá fyrirtækinu en hún verður forstöðumaður sólarlandadeildar Gaman Ferða.

„Það var greinilegt að WOW air myndi koma með ferska vinda inn á þennan markað og við vildum taka þátt í þessu ævintýri. Í kjölfarið gerðu Gaman Ferðir samstarfssamning við WOW air og boltinn fór að rúlla. Til að byrja með voru fótboltaferðir og tónleikaferðir í aðalhlutverki en hægt og rólega hefur vöruúrvalið verið að aukast hjá Gaman Ferðum með sólar-,golf- og skíðaferðum“ segir Þór Bæring framkvæmdastjóri.

„Þór og Bragi hafa byggt upp mjög flott félag á skömmum tíma og hefur samstarf okkar við Gaman Ferðir verið mjög gott frá fyrsta degi. Við sjáum margvísleg tækifæri í því að vinna enn nánar með Gaman ferðum næstu árin í að bjóða fjölbreyttar pakkaferðir á hagstæðustu kjörunum sem völ er á“ segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×