Í liði Ítala eru þrír frægir NBA-leikmenn en þetta eru allt leikmenn sem hafa spilað lengi í NBA og hafa vakið athygli fyrir góðan leik.
Danilo Gallinari (Denver Nuggets), Andrea Bargnani (Brooklyn Nets) og Marco Belinelli (Sacramento Kings) hafa allir skapað sér nafn í NBA-deildinni og það verður erfitt verkefni fyrir íslensku vörnina að reyna að stoppa þá í leiknum í dag.
Danilo Gallinari átti frábæran leik á móti Tyrkjum í gær en hann skoraði þá 33 stig eftir að hafa hitt úr 9 af 10 skotum sínum utan af velli og 14 af 15 skotum sínum af vítalínunni.
Marco Belinelli skoraði 14 stig og gaf 4 stoðsendingar í leiknum en hitti reyndar aðeins úr 2 af 8 þriggja stiga skotum sínum.
Andrea Bargnani var með 12 stig og 4 fráköst en Ítalir töpuðu með tíu stigum þær 22 mínútur sem hann spilaði. Bargnani var ekki í byrjunarliði Ítala á móti Tyrkjum í gær.

Gallinari er með 14,2 og 4,5 fráköst að meðaltali í 344 leikjum sínum í NBA-deildinni en hans besta tímabil var 2012-13 (16,2 stig og 5,2 fráköst). Hann missti af 2013-14 tímabilinu vegna meiðsla (krossbandsslit).

Bargnani er með 15,0 og 4,8 fráköst að meðaltali í 504 leikjum sínum í NBA-deildinni en hans besta tímabil var 2010-11 (21,4 stig og 5,2 fráköst).

Marco Belinelli er eini Ítalinn sem hefur orðið NBA-meistari en í úrslitakeppninni 2014 var hann með 5,4 stig í leik og 42,1 prósent þriggja stiga skotnýtingu.
Sacramento Kings verður hans sjötta NBA-lið en hann hefur einnig spilað með Golden State Warriors, Toronto Raptors, New Orleans Hornets, Chicago Bulls og svo San Antonio Spurs.
Belinelli er með 9,4 stig og 39 prósent þriggja stiga skotnýtingu í 502 leikjum sínum í NBA-deildinni en hans besta tímabil var 2011-12 (11,8 stig). Belinelli vann þriggja stiga skotkeppni Stjörnuleikshelgarinnar árið 2014.
Leikur Íslands og Ítalíu hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma en fylgst verður með gangi máli hér inn á Vísi.