Handbolti

Íris Björk og Guðjón Valur handboltafólk ársins 2015

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íris Björk Símonardóttir og Guðjón Valur Sigurðsson.
Íris Björk Símonardóttir og Guðjón Valur Sigurðsson. vísir/vilhelm/stefán
Íris Björk Símonardóttir, markvörður Íslands- og bikarmeistara Gróttu, og Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði Íslands, eru handboltafólk ársins 2015 að mati HSÍ.

Íris stóð vaktina í marki Gróttuliðsins sem vann alla titla sem í boði voru á síðustu leiktíð en hún hefur um árabil verið einn albesti markvörður úrvalsdeildar kvenna.

Íris lék sinn fyrsta landsleik gegn Færeyjum 21.maí 2005 og lék alls 67 landsleiki ásamt því að skora 4 mörk þar til hún lagði landsliðsskóna á hilluna sumarið 2014.

Guðjón Valur Sigurðsson varð Evrópumeistari í fyrsta sinn þegar hann fagnaði sigri í Köln með liði sínu Barcelona en Guðjón spilaði frábærlega á úrslitahelginni.

Barcelona vann alla titla sem í boði voru nema einn á árinu en liðið er ósigrandi á Spáni og búið að setja met yfir fjölda sigra í röð.

Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik 16. desember 1999 í Haarlem í Hollandi á móti Rúmeníu og skoraði þar 2 mörk. Þá hefur hann verið lykilmaður í landsliðinu um langt skeið. Guðjón Valur hefur leikið 316 A-landsleiki og skorað í þeim 1677 mark. Þá lék hann 14 leiki með yngri landsliðum og skoraði í þeim 23 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×