Fyrsti leikur 10. umferðar Pepsi-deildar karla fer fram í kvöld þegar Fylkir tekur á móti Víkingi á Fylkisvelli. Búast má við fjölmenni á leiknum enda enginn annar leikur í gangi á sama tíma í Pepsi-deildinni.
Síðast þegar Fylkismenn stóðu einir að fótboltakvöldi, gegn Breiðabliki í fyrstu umferð deildarinnar, mættu tæplega 2.300 áhorfendur. Gjaldkeri Fylkismanna brosir sínu breiðasta.
Árbæingar ættu alveg að búast við þremur stigum hjá sínum mönnum í kvöld miðað við leiki liðanna undanfarinn áratug eða svo. Víkingum virðist ómögulegt að vinna Fylki í efstu deild.
Það eru 22 ár síðan Víkingur vann Fylki síðast í efstu deild, en sumarið 1993 hafði Fossvogsliðið betur í Árbænum, 2-1, með mörkum Tomaszar Jaworek og Marteins Guðgeirssonar.
Eftir þann sigur töpuðu Víkingar níu leikjum í röð gegn Fylki í efstu deild, en náðu í sitt fyrsta stig síðan í sigrinum 1993 í Árbænum í fyrra þegar Pape Mamadou Faye tryggði Víkingum 1-1 jafntefli.
Með sigri í kvöld lyfta Víkingar sér upp fyrir Fylki í deildinni. Fylkir hefur ekki unnið í fjórum deildarleikjum í röð og tapað þremur heimaleikjum í röð.

