Skoðun

Með jöfnuð að leiðarljósi

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Síðastliðið ár var viðburðaríkt á alþjóðavísu. Nægir þar að nefna flóttamannastrauminn og loftslagsbreytingar sem við sjáum þegar merki um í veðurfari og umræðu um þessi risavöxnu viðfangsefni.

Ójöfnuður er iðulega ein undirrót stríðsátaka sem valda því að fólk flýr heimili sín og leitar að friðsamlegra umhverfi. Öll gögn sýna að gríðarlegur ójöfnuður er milli heimshluta en líka innan einstakra landa. Ójöfnuðurinn veldur átökum og valdabaráttu.

Ójöfnuður kemur líka við sögu þegar rætt er um loftslagsbreytingar en fátækari þjóðir hafa mun síðri möguleika en ríkari svæði á að takast á við afleiðingar þeirra. Eigi að síður er það svo að fátækustu þjóðirnar bera einna minnsta ábyrgð á loftslagsbreytingum þótt afleiðingarnar skelli á þeim af fullum þunga.

Alþjóðastofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa um nokkurra ára skeið bent á ójöfnuð sem vaxandi vandamál. Íhaldssamar stofnanir benda einnig á þau hagrænu vandamál sem fylgja ójöfnuði. OECD sendi til dæmis frá sér skýrslu í desember 2014 þar sem aðildarríki voru hvött til að endurskoða skattkerfi sín út frá sjónarmiðum jafnaðar þar sem aukinn jöfnuður hefði jákvæð áhrif á hagsæld.

Jöfnuður snýst um það hvernig við skiptum þeim gæðum sem við höfum úr að spila. Með skynsamlegri og sjálfbærri atvinnustefnu getum við gert sem mest úr þeim gæðum án þess að skaða umhverfið. Síðan er hægt að skipta þeim með jöfnuð og sanngirni að leiðarljósi og beita skattkerfi og velferðarkerfi til að tryggja ákveðinn jöfnuð í samfélaginu. Hversu langt er gengið er hápólitísk spurning og snýst um hægri og vinstri.

Margir stjórnmálamenn vilja hvorki skilgreina sig til hægri né vinstri. Þá er hættan sú að þeir skili auðu þegar kemur að stóru úrlausnarefnunum framundan þar sem baráttan um auðlindir mun harðna og skipting gæðanna verður æ stærra viðfangsefni. Víða erlendis má sjá nýja strauma í stjórnmálum og þeir liggja ekki á miðjunni. Einnig á Íslandi er mikilvægt að stjórnmálaöflin taki skýra afstöðu til þessara mikilvægustu spurningu samtímans. Þörfin er rík fyrir skýra vinstristefnu.




Skoðun

Sjá meira


×