Viðskipti innlent

Bjarni vill endurskoða reglur um sölu jóla- og páskabjórs

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Þetta er auðvitað sóun, það er alveg hárrétt,“ sagði ráðherrann á þinginu í dag.
„Þetta er auðvitað sóun, það er alveg hárrétt,“ sagði ráðherrann á þinginu í dag. Vísir/GVA
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir rétt að endurskoða reglugerð sem bannar sölu árstíðabundinnar vöru á borð við jóla- og páskabjór. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar.

Brynhildur sagði það sóun að hella niður fullkomlega góðum bjór.Vísir/Valli
„Mér finnst þetta vera fáránleg sóun í rauninni,“ sagði Brynhildur. „Þetta er árstíðabundin vara þannig að ég sem neytandi sem væri alveg sama þó ég væri að drekka einhvern jólabjór í dag og myndi frekar vilja það en honum yrði hellt niður, ég hef í rauninni ekki möguleika á því af því það má ekki selja hann.“

Bjarni tók undir með Brynhildi og svaraði skýrt.„Hér er náttúrulega tekið upp stórmál,“ sagði hann og uppskar hlátur. „Og enn eitt kannski dæmið um það hve langt við höfum viljað ganga langt á tíðum við að handstýra þjóðfélaginu. Það skal ekki seldur páskabjór nema það séu páskar og það skal ekki drukkið jólabjór nema það séu jól fram undan og ekki of lengi eftir að jólahátíðinni líkur.“

„Að sjálfsögðu eru þetta reglur sem taka ætti til endurskoðunar, sem og þær um hvar megi selja bjórinn,“ sagði hann og tók sérstaklega undir með Brynhildi að það væri mikil sóun að hella niður vöru sem í góðu lagi væri með út af því að merkingarnar stangast á við dagatalið. „Þetta er auðvitað sóun, það er alveg hárrétt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×