Innlent

Vernda fólk sem vill geta neitað hinsegin fólki um þjónustu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá gleðigöngunni í Bandaríkjunum
Frá gleðigöngunni í Bandaríkjunum vísir/getty
Öldungadeild ríkisþings Mississippi í Bandaríkjunum samþykkti í vikunni ný lög sem mismuna hinsegin fólki en löggjöfin er af mörgum talin ganga lengst allra þeirra laga sem samþykkt hafa verið í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna og skerða réttindi hinsegin fólks.

Lagafrumvarpið var samþykkt með 31 atkvæði gegn 17 og er kallað „trúfrelsisfrumvarpið.“ Það felur það vernd fyrir einstaklinga, trúfélög og ákveðin fyrirtæki sem neita að þjónusta hinsegin fólk. Þá felur það jafnframt í sér vernd fyrir þá sem neita að viðurkenna kyn transfólks.

Repúblikanar fara með meirihluta bæði í öldungadeild og fulltrúadeild ríkisþingsins en strax í kjölfar þess að frumvarpið var samþykkt lögðu demókratar fram breytingatillögu svo kjósa þarf aftur í næstu viku. Það er þó talið að það breyti engu þar sem repúblikanir segja dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna frá því í júní í fyrra um að hjónabönd samkynhneigðra væru lögleg í öllum ríkjum landsins skapa vandamál fyrir fólk sem er trúað.

„Þessi löggjöf verndar þá sem geta ekki með góðri samvisku þjónustað hjón af sama kyni. Þetta felur ekki í sér mismunun,“ segir öldungadeildarþingmaðurinn Jennifer Branning.

Demókratar hafa mótmælt löggjöfinni harðlega sem og þeir sem barist hafa fyrir réttindum hinsegin fólks í Bandaríkjunum. Vilja þeir meina að mikil mismunun felist í lögunum þar sem fólki er veittur réttur til þess að neita hinsegin fólki um þjónustu, vörur, læknisþjónustu, húsnæði og atvinnu.

„Þetta er væntanlega versta trúfrelsisfrumvarp allra tíma,“ segir Ben Needham, baráttumaður fyrir réttindum hinsegins fólks í Suðurríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×