Innlent

Um þriggja tíma seinkun á flugi frá Egilsstöðum vegna bilunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Flugvöllurinn á Egilsstöðum.
Flugvöllurinn á Egilsstöðum. Vísir/Vilhelm
Um þriggja tíma seinkun varð á áætlunarflugi Flugfélags Íslands frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í gærkvöldi. Áætluð brottför Fokker-flugvélar flugfélagsins var klukkan 19:45 í gærkvöldi en vegna bilunar þurfti að senda Bombardier-flugvél frá Reykjavík til ná í farþegana á Egilsstaði sem lögðu ekki af stað til Reykjavíkur fyrr en klukkuna vantaði tuttugu mínútur í ellefu en flugtíminn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur er um ein klukkustund. 

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir Bombardier-vélina hafa flogið með farþega frá Akureyri til Reykjavíkur í gærkvöldi.

Bombardier Q-400 flugvél var send frá Reykjavík til að sækja farþegana á Egilsstöðum eftir að Fokker-vélin bilaði. Vísir/Vilhelm
Þegar ljóst var að Fokker-vélin yrði ekki nothæf var Bombardier-vélin send frá Reykjavík til Egilsstaða til að sækja farþegana. Fokker-vélin er enn á Egilsstöðum og eru flugvirkjar að skoða hana en Árni telur upp á að bilunin tengist væntanlega afísingarbúnaði hennar.

Réttindi flugfarþega á stuttu flugi, innan við 1.500 kílómetra, á við um flug innanlands, til Grænlands, Færeyja og Glasgow. Farþegar eiga alltaf rétt á þjónustu hjá flugfélaginu sem þeir eiga far með ef seinkun verður á því, svo framarlega sem flugið fellur undir EES-reglur. Yfirleitt á þetta við um mat, drykk og aðstöðu til samskipta (er þá oftast um endurgreiðslu á símareikningum að ræða).

Flugfarþegar gætu líka átt rétt á skaðabótum á stuttu flugi ef seinkunin er lengri en þrjár klukkustundir en þá er hægt að sækja um 250 evrur, sem nemur um 35 þúsund íslenskum krónum, í bætur. 

Sjá nánar um réttindi flugfarþega hér. 


Tengdar fréttir

Ekkert vesen á nýju vélinni

Rekstur fyrstu Bom­bardier Q400 flugvélar Flugfélags Íslands gengur vel, að sögn framkvæmdastjórans, Árna Gunnarssonar. Fyrr í mánuðinum þurfti að lenda vélinni á Keflavíkurflugvelli í stað Reykjavíkurflugvallar vegna bilunar í vængbörðum en að öðru leyti segir Árni hafa gengið ágætlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×